Að sögn Jónasar Friðriks Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, er því ekki að leyna að eftirlitið er með gríðarlega stórt verkefni í höndunum, þar sem það stendur nú fyrir skilanefnd vegna viðskiptabankanna þriggja.

„Ég held að ef menn horfa til þeirra landa sem við berum okkur saman við þá er ljóst að það eru auðvitað efnahagslegir hvirfilbyljir sem eru að ganga yfir allt þjóðfélagið. Því miður er það svo, að þó að menn byggi hús eftir bestu stöðlum sem finnast þá standast þau ekki alla hvirfilbylji. Það sem gerðist er að íslensku bankarnir urðu mjög snögglega fórnarlömb hins alþjóðlega lausafjárskorts. Þó svo að það hafi verið erfitt fyrir þá voru þeir að halda sjó, en eftir að Lehman Brothers fór í gjaldþrot þornuðu markaðir almennt upp og íslensku bankarnir fóru enn ver út úr því og þegar áföllin komu eitt af öðru þá varð við lítið ráðið," sagði Jónas.

Hann sagði að hegkerfi heimsins séu að ganga í gegnum mikla erfiðleika en efnahagslífið byggir á góðum grunni.

„Það er mikil þekking og reynsla í fjármálalífinu. Þó að það séu skuldir eru þar einnig verulegar eignir. Hætt er við á svona tímum að eitthvað muni tapast en það verður að nýta það sem eftir verður sem best. Ég hef þá trú að ef menn eru samtaka þá takist að vinna sig út úr þessu og koma á stöðugleika. Við skulum hafa í huga að aðrar þjóðir hafa lent í fjármálakerfiserfiðleikum. Nærtækasta dæmið fyrir okkur er að horfa til hinna Norðurlandanna í upphafi níunda áratugarins. Það er auðvitað sérstaklega erfitt þegar þú ert í miðjum vandanum en þau hafa náð að vinna sig  vel út úr því eins og við sjáum."

_______________________________________

Nánar er rætt við Jónas í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .