Viðskiptablaðið fjallaði fyrr í dag um efnahagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eins og fram kom í fréttinni er þess vænt að vöxtur heimshagkerfanna verði nokkuð slappur. AGS spáir því að heimshagkerfin vaxi að meðaltali um 3,1% á þessu ári og 3,4% árið 2017. En hvaða hagkerfi munu að mati AGS vaxa hraðast, hverjir eru efnahagslegur sigurvegarar næstu ára?

Evrópa og Ameríka

Samkvæmt spánni munu Bandaríkin vaxa um 1,6% á þessu ári, sem er nær 1% lægra en árið 2015. 2017 á aftur á móti að verða ágætis ár, í samanburði við núverandi stöðu, en þá er því spáð að hagvöxtur verði 2,2%. Sjóðurinn spáir því að Kanadískahagkerfið vaxi um 1,2% í ár en 1,9% á því næsta.

Evrusvæðið mun að mati AGS einungis vaxa um 1,5% árið 2017. Í ár á vöxturinn að vera um 1,6%. Af stærstu hagkerfum Evrópu, mun Þýskaland líklegast vaxa um 1,7% í ár, Frakkland um 1,3% og Ítalía um 0,8%. Hástökkvarinn á Evrusvæðinu verður þá líklegast Spánn, en AGS spáir því að hagkerfið vaxi um 3,1% í ár.

AGS er svartsýnn í garð Bretlandseyja, en hann telur að hagvöxtur í Bretlandi muni nema 1,8% í ár og 1,1% árið 2017.

Asía & Rússland & Indland

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekkert svakalega bjartsýnn í garð Rússlands. Hann spáir því að hagvöxtur muni vera neikvæður um 0,8% á þessu ári og muni svo nema 1,1% á því næsta. Japönum er svo spáður 0,5% vöxtur í ár og 0,6% vöxtur á næsta ári.

AGS lýsti því yfir að áhyggjurnar væru minni en áður varðandi Kínverskar efnahagshorfur. Hagkerfið hefur nú í nokkra tíð vaxið umfram 10% á ári, en hægt hefur á vexti undanfarin ár. Sjóðurinn spáir því að kínverskur efnahagur vaxi um 6,6% í ár og 6,2% árið 2017.

Útlit er fyrir að Indland verði sigurvegari hinna efnahagslegu framfara næstu árin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hagkerfið muni vaxa um 7,6% í ár og svo 7,6% á næsta ári. Engu öðru hagkerfi er spá jafn miklu vexti.

Suður Ameríka

Sjóðurinn telur að Brasilískur efnahagur munu sjá þokkalegan samdrátt annað árið í röð, en í fyrra dróst hagkerfið saman um sem nemur 3,8%. Í ár telur sjóðurinn að hagkerfið dragist saman um sem nemur 3,3%, en árið 2017 spáir sjóðurinn 0,5% hagvexti.

Þá telur sjóðurinn að Mexíkó vaxi um 2,1% í ár og 2,3% á því næsta. Spennandi verður að sjá hvort að sjóðurinn breyti hagvaxtarhorfum sínum fyrir Mexíkó í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Miðausturlönd & Afríka

Sádí Arabía mun að mati sjóðsins vaxa um 1,2% á þessu ári, en 2% árið 2017. Almennt telur sjóðurinn að Miðausturlöndin sjái 3,4% hagvöxt í ár og 3,4% hagvöxt árið 2017.

Nígería hefur þurft að finna fyrir miklum samdrætti í ár, en í lok árs mun hagkerfið líklegast hafa dregist saman um 1,7%. Þá spáir sjóðurinn því að Nígería vaxi um 0,6% árið 2017. Suður Afríku er einungis spáð 0,1% vexti í ár og 0,8% vexti árið 2017.