Efnahagslegur hreyfanleiki var hvergi meiri á Evrópska efnahagssvæðinu en á Íslandi árin 2009-2012, en með efnahagslegum hreyfanleika er átt við það hve stór hluti viðkomandi þjóðar færist á milli tekjuhópa á ákveðnu tímabili. Kemur þetta m.a. fram í riti Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, um lífskjör á svæðinu.

Í skýrslunni er þjóðum skipt í tíu jafnstóra hópa eftir tekjum og svo skoðað hversu stór hluti mannfjöldans fór upp, eða niður, um a.m.k. eitt þrep á þessum stiga á síðustu þremur árum. Í tilviki Íslands fóru 22,4% þjóðarinnar upp um þrep á tímabilinu 2009-2012, en 21,6% fóru niður um þrep. Meðaltal Evrópusambandsins var 17,6% upp og 17,2% niður og sambærilegar tölur fyrir evrusvæðið voru 16,9% og 16,2%.

Í engu ríki var eins mikill efnahagslegur hreyfanleiki árið 2012 og hér á landi og má sem dæmi nefna að hann var mun minni í Noregi, en þar færðust 15,3% þjóðarinnar upp um þrep og 15,6% niður um þrep sama ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .