Staða íslenska hagkerfisins hefur gjörbreyst frá síðustu spá greiningardeildar Kaupþings í kjölfar þess að undirmálskrísan hefur dýpkað á erlendum mörkuðum. Greiningardeildin kynnti nú eftir hádegi nýja efnahagsspá sína þar sem kemur fram að efnahagslífið er á hraðri leið til kólnunar og telur greiningardeildin að það gefi Seðlabankanum færi á lækkun vaxta fyrr en áður var spáð.

Óhættt er að segja að verulega hafi kveðið við annan tón frá því greiningardeildin kynnti síðustu spá sína í október. Nú ræða sérfræðingar hennar um hraðari kólnun og dýpri niðursveiflu en áður. Því er spáð að einkaneysla og fjárfestingar dragist saman og samdrætti í innflutningi.

Í spá sinni gerir greiningardeildin ráð fyrir að gengi krónunnar veikist í upphafi vaxtalækkunarferlis á öðrum og þriðja fjórðungi þessa árs og miðast allar spár við þá forsendu. Hins vegar telur greiningardeildin að vaxtamunur verði það mikill -- og að einhverju leyti studdur af vaxtalækkunum seðlabanka í nágrannalöndum -- að krónan mun áfram hafa töluverðan stuðning.

Í hagspá sinni gerir greiningadeildin ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 5% á næstu tveimur árum. Hún trúir því hins vegar að nýjar stóriðjufjárfestingar og framkvæmdir á vegum ríkisins mæti þeim slaka að einhverju leyti.