Hugmyndin að tískuhúsinu Ellu varð til árið 2007 þegar Elínrós Líndal þótti tíðarandinn kalla á breytingar í tískunni. Vefverslun Ellu opnaði í apríl árið 2011 og hefur þróast hratt síðan. „Við vorum búin að sjá þróunina á tíunda áratuginum. Tískufyrirtæki voru mörg sett á markað og maður man til dæmis eftir opinberu ósætti Jill Sanders við fjárfesta sína af því að hún vildi ekki framleiða vörur sínar í Kína. Kröfur um ávöxtun á eigið fé tískufyrirtækja jukust og áherslan færðist úr því að skapa eitthvað fallegt, verðmæti fyrir samfélagið, yfir í að skapa verðmæti fyrir hluthafa fyrirtækisins. Hvoru tveggja ætti samhliða að vera mögulegt,“ segir Elínrós í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

„Þessu fylgdi krafa um meiri hraða í tískunni og úr varð svokölluð hraðtíska (e. fast fashion).“ Elínrós segir andstæðuna kallaða hægtísku (e. slow fashion). „Hægtíska er meiri gæði og minna magn. Það eru fleiri fyrirtæki í slíkri framleiðslu hér á Íslandi en við erum fyrsta fyrirtækið sem kallar sig það. Í hægtísku felst líka að við erum samfélagslega ábyrg og umhverfisvæn. Við horfum til allra þeirra hluta sem menga í geiranum okkar og við misnotum ekki vinnuafl.“

Nánar er fjallað um tískuhúsið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.