Fyrirtæki um heim allan, þar á meðal á Íslandi, munu þurfa að bæta verulega við efnahagsreikninga sinna þegar nýir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar taka gildi. Alls munu um 3.000 milljarðar Bandaríkjadala, andvirði um 390.000 milljarða króna, bætast við efnahagsreikninga fyrirtækja vegna breytinga á stöðlunum. Staðlarnir taka gildi 1. janúar 2019 og er því nokkur tími til stefnu áður en af þessum breytingum verður.

Í grunninn snýst þetta um það hvernig langtíma- og kaupleigusamningar hafa verið og verða afgreiddir í reikningum fyrirtækja. Hingað til hafa slíkir samningar almennt verið utan efnahagsreiknings og hefur það fyrirkomulag sætt nokkurri gagnrýni. Sturla Jónsson, endurskoðandi hjá Grant Thornton, segir í samtali við Viðskiptablaðið að með breytingunum sé í raun verið að þrengja verulega skilyrðin fyrir því að mega halda slíkum samningum utan efnahagsreiknings.

„Samkvæmt nýju stöðlunum má segja að almennt verður litið svo á að langtímaleigusamningur eða kaupleigusamningur feli í raun í sér skuldsett kaup á afnotarétti. Leigutakinn verður því að færa afnotarétt á eigninni, sem á leigu er, til bókar í efnahagsreikningi og skuldfæra leigusamninginn. Í stað þess að leigugreiðslur séu því teknar í rekstrarreikning sem kostnaður verða þær afgreiddar sem vaxtagreiðslur af láni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .