Íslenskt efnahagslíf einkennist af miklum óstöðugleika samkvæmt nýrri skoðun Viðskiptaráðs Íslands. Í skoðun ráðsins segir að þótt að ákveðinn breytileiki sé nauðsynlegur þá dragi slíkar sveiflur úr getu innlendra fyrirtækja til að geta mótað langtímaáætlanir, byggja upp sérhæfingu og fjárfesta í tækjum og mannauði til að auka rekstrarhagkvæmni.

Í skoðuninni kemur fram að efnahagssveiflurnar séu talsvert meiri á Íslandi heldur en í öðrum þróuðum ríkjum. Í samanburði við fimtán iðnríki eru bæði verðlags og hagvaxtarsveiflur hérlendis þær mestu og gildir einu hvort miðað sé við tímabil fyrir tilkomu EES-samningsins, með fastgengisstefnu og fjármagnshöftum eða eftir gildistöku hans með frjálsum fjármagnsflutningum. Fyrirkomulag peningamála sé því ekki kjarnaorsök sveiflnanna.

Viðskiptaráð bendir á þrjá þætti sem þarf að bæta ef að ráðast eigi að grunnrótum vandans.

Í fyrsta lagi þarf opinber rekstur að styðja við peningastefnu í að vinna gegn hagsveiflum, en í því felst að aðhald sé aukið í opinberum fjármálum þegar vel árar í efnahagsmálum. Þróun í nýjustu fjárlögum er á öfuga átt, útgjöld eru aukin á sama tíma og þensla sé að myndast í efnahagslífinu.

Í öðru lagi þarf peningastefnan að styðja við stöðugleika án þess að skerða viðskiptafrelsi þannig að það standi verðmætasköpun fyrir þrifum. Það þýðir m.a. að fjármagnshöftum verði létt.

Í þriðja lagi er bent á að helsti veikleiki hagstjórnar á Íslandi sé vinnumarkaðurinn, en of mikil áhersla hafi verið á nafnlaunahækkanir fremur en kaupmáttaraukningu.

Viðskiptaráð bendir að lokum á að aukinn efnahagslegur stöðugleiki sé stærsta sóknartækifærið þegar kemur að því að styðja við framleiðnivöxt hérlendis, en ef takist vel til þá muni það skila sér í formi aukinna lífsgæða svo um munar.