Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja. Skýrslan fer yfir sögu hvalveiða við Íslandsstrendur og viðbröð annarra ríkja við hvalveiðum Íslands.

Eftir 2003

Skýrslan segir að töluverð viðbrögð hafi verið við hvalveiðum Íslendinga eftir árið 2003, en þá voru þau heimiluð í vísindaskyni.  Breska sendiráðið í Reykjavík kom á framfæri mótmælum 23 ríkja gegn veiðunum með orðsendingu sem utanríkisráðuneytið svaraði með orðsendingu til hvers ríkis fyrir sig þar sem stefna Íslendinga í hvalveiðimálum var rakin.

Sum fyrirtæki tóku til þess ráðs að lýsa yfir andstöðu við hvalveiðar til að þær myndu ekki bitna á hagsmunum þeirra erlendis. Ekki hafa þó komið fram neinar upplýsingar sem benda til þess að hvalveiðar hafi bitnar á heildarútflutningi Íslendina eða viðskiptum Íslendinga erlendis.

Viðbrögðin, þegar atvinnuveiðarnar hófust haustið 2006, voru heldur minni en viðbrögðin við vísindaveiðunum. Bretar höfðu aftur frumkvæði að því að koma á framfæri mótmælum 25 ríkja auk framkvæmdastjórnar ESB með orðsendingu, en henni var ekki fylgt eftir.

Lítill þróttur í mótmælum erlendis vegna atvinnuhvalveiða skýrist m.a. af því að andstæð- ingar hvalveiða höfðu þegar gagnrýnt vísindaveiðar Íslendinga sem dulbúnar atvinnuveiðar. Hvalveiðiandstæðingar hafa jafnframt verið tregir til að gera greinarmun á einstökum hvalategundum í upplýsingaefni sínu. Ákvörðun Íslendinga um að hefja veiðar á langreyði auk hrefnu virtist í augum óbreyttra hvalveiðiandstæðinga tæknilegt atriði sem vakti tiltölulega lítil viðbrögð.

Hvalamálin skipa ekki lengur þann höfuðsess í málflutningi og stefnu umhverfissamtaka sem þau gerðu á níunda áratug síðustu aldar þegar nokkrar af stærstu tegundunum voru í útrýmingarhættu vegna ofveiði. Hvalamálin hafa vikið fyrir öðrum og brýnni baráttumálum sem tengjast loftslagsmálum, mengun, gróðureyðingu og matvælaskorti svo eitthvað sé nefnt. Afar jákvætt er hversu mikill almennur stuðningur ríkir innan alþjóðasamfélagsins við að standa vörð um þá stofna sem eru í hættu og eru nú engar fyrirætlanir um að veiða úr þeim hvalastofnum sem sannanlega eru í útrýmingarhættu. Einu veiðarnar úr slíkum stofnum eru frumbyggjaveiðar, m.a. við Alaska, Grænland og Rússland.

Barack Obama og Pelly

Núverandi Bandaríkjaforseti, Barack Obama hefur beitt ákvæðum Pelly viðaukans alls þrisvar sinnum þar sem hann hefur meðal annars ákveðið að hvalveiðimálið yrði tekið upp á öllum fundum bandarískra ráðamanna með Íslendingum og metið yrði hvort heimsóknir háttsettra aðila til Íslands væru við hæfi við þessar aðstæður.

Fram kemur þó í skýrslunni að heimsóknari bandarískra ráðherra hafi almennt ekki verið tíðar. Háttvirtir bandaríksir embættismenn hafi þó heimsótt Ísland á síðustu árum þrátt fyrir beitingu Pelly-viðaukans. Fram kemur að það verði ekki séð að raunveruleg áhrif ákvarðananna hafi verið teljandi, hvort sem litið er til viðskiptalegra hagsmuna, diplómatískra samskipta ríkjanna eða þróunar á vettvangi þeirra alþjóðasáttmála sem til grundvallar liggja.

Skaðar ekki utanríkispólitíska hagsmuni

Skýrslan segir að almennt hafi þess ekki orðið vart að utanríkispólitískir hagsmunir Íslands hafi verið fyrir borð bornir sökum hvalveiða.  Framhjá því verður þó ekki litið að almenningsálit í mörgum viðskiptalöndum Íslands hefur verið gegn hvalveiðum. Hafa slík sjónarmið og stjórnmálaumræða í tilteknum ríkjum stundum falið í sér óþægindi fyrir útflytjendur og eftir atvikum kaupendur og verslanir í viðkomandi ríkjum sem beinast að íslenskum vörum og afurðum.

Alþjóðalög og sáttmála ber að virða og ekki er unnt að vefengja rétt Íslands til að nýta lifandi sjávarauðlindir á borð við hval með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Að sama skapi er efnahagslegt mikilvægi veiða á stórhvelum hverfandi. Eins og rakið er í skýrslunni eru ekki haldbærar ástæður til að ætla að óbreytt ástand mála muni hafa meiri áhrif á samskipti Íslands við önnur ríki en verið hefur fram að þessu. Hins vegar má af niðurstöðum skýrslunnar draga þá ályktun að seint skapist sátt um hvalveiðar Íslendinga á alþjóðavettvangi miðað við óbreytt ástand, einkum og sér í lagi með tilliti til stórhvalaveiða. Því er ekki loku fyrir það skotið að með því að draga saman í veiðum á stórhvelum náist aukin sátt um stefnu Íslendinga í þessum málaflokki á alþjóðavettvangi á yfirstandandi kvótatímabili. Þá má ætla að efnahagslegar forsendur og aðgangur að erlendum mörkuðum verði hafður til hliðsjónar við mat á framhaldi stórhvalaveiða þegar núverandi kvótatímabili lýkur.