Einkaneysla dróst saman um 0,8% milli fjórðunga á þriðja fjórðungi að teknu tilliti til árstíðarsveiflu. Í Peningmálum Seðlabankans segir að þessi þróun sé í ágætu samræmi við nóvemberspá bankans en þar hafði verið gert ráð fyrir 0,9% samdrætti milli fjórðunga. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnti Peningamálin á fundi í bankanum í morgun.

Hins vegar var einkaneysla á fyrri hluta ársins lækkuð í endurskoðun Hagstofunnar á fyrri gögnum og því reyndist ársvöxtur hennar 0,3 prósentum minni á þremur fyrstu fjórðungum ársins en spáð var í nóvember.

Leiðandi vísbendingar um þróun einkaneyslu gefa til kynna að áfram hafi hægt á vexti einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi og að ársvöxtur hennar hafi numið 1,2%, sem er heldur minni vöxtur en gert var ráð fyrir í nóvemberspánni. Gangi það eftir verður vöxturinn á árinu í heild 2,6% í stað 3% í nóvemberspánni.

Að hluta má rekja mismuninn til fyrrnefndrar endurskoðunar Hagstofunnar á einkaneyslu á fyrri hluta ársins en að stærstum hluta virðist hann endurspegla að hægt hefur hraðar á eftirspurn heimila eftir því sem liðið hefur á árið en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans. Það er í takt við hægari vöxt atvinnu en spáð var í nóvember en er einnig í samræmi við alþjóðlega þróun, en hratt dregur úr vexti einkaneyslu í ríkjum sem reiða sig á útflutning til evrusvæðisins. Efnahagsumsvif hafa því dalað hraðar en spáð hafði verið og svartsýni meðal neytenda aukist á ný, svipað og sjá má hér á landi í lækkun væntingavísitölu Gallup á síðustu mánuðum síðasta árs.