Nýleg gögn virðist benda til að efnahagur Bandaríkjanna stefni í mjúka lendingu. Hlutabréfamarkaðir hafa hækkað og framleiðsluverð hefur lækkað um 0,9%, sem er mesta lækkunin í þrettán ár. Hæging á hækkun orkuverðs hefur einnig orðið til þess að vísitala heildsöluverðs hefur lækkað um 1,6%, segir í frétt Dow Jones.

Ekki er talið að þessi gögn muni breyta jákvæðri efnahagsspá Seðlabanka Bandaríkjanna. Gögnin virðast undirstrika skoðun bankans að lækkun olíuverðs muni létta á verðbólguþrýstingi og að hæging á húsnæðismarkaði muni ekki hafa áhrif á smásölu.

Smásala var meiri en væntingar greiningaraðila gerðu ráð fyrir, en svo virðist sem þeir peningar sem sparast í bensínkaupum hafi skilað sér í matvæla- og bifreiðageiranum. Smásala jókst um 0,4% í október, ef frá eru talin bensínkaup, en lækkaði um 0,2% ef þau eru talin með. Það er hinsvegar ólíklegt að seðlabankinn muni byggja peningamálastefnu sína á vísitölu heildsöluverðs, en gögn um vísitölu neysluverðs verða birt síðar í vikunni.