*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 5. nóvember 2011 15:53

Simon Johnson:Efnahagur evruríkjanna sjálfra í uppnámi

Segir ekki vera tekið á hinum raunverulega vanda.

Ritstjórn
"Með samkomulagi evruríkjanna er gert afskaplega lítið af því að takast á við hinn raunverulega undirliggjandi vanda.“
Birgir Ísl. Gunnarsson

Simon Johnson, hagfræðiprófessor við MIT, segir í viðtali í Viðskiptablaðinu að hugsanlega geti evruríkjunum tekist að forða sér frá hruni ef lagt verður í gríðarlegan björgunarleiðangur, mun stærri en þegar hefur verið farið í, sem hafi það að markmiði að vernda fjárfesta vítt og breitt um heiminn. „Út á það gengur meginhugmyndin núna, að fara í enn eina björgunina sem festir freistnivandann í sessi.

Og hvað lærir markaðurinn á því? Jú, að bankarnir og fjármálafyrirtækin geti farið sínu fram og haldið uppteknum hætti. Það er annað hvort þetta eða svo hinn kosturinn, sem væru einhvers konar óskipulögð gjaldþrot. Þetta er staðan á evrusvæðinu. Og svo ég sé alveg hreinskilinn þá vil ég taka fram að með samkomulagi evruríkjanna er gert afskaplega lítið af því að takast á við hinn raunverulega undirliggjandi vanda.“

Að mati Simons er staðan í evrulöndunum mjög erfið, ekki bara vegna bankanna sem hafi veitt vond lán og hagað sér af ábyrgðarleysi, vandinn liggi líka hjá ríkisstjórnum evrulandanna. „Þegar bankarnir komust í vandræði í Bandaríkjunum studdi alríkisstjórnin við bakið á þeim. Við getum deilt um hvernig og hvað hefði átt að gera öðruvísi o.s.frv. Efnahagur ríkjanna sjálfra var notaður til þess að bjarga bönkunum.

En í Evrópu er það efnahagur ríkjanna sem er í uppnámi. Grikkland á í miklum skuldavanda, önnur ríki eru einnig mjög skuldug, einkum og sér í lagi Ítalía. Það er enginn seðlabanki til á Ítalíu og Ítalir geta ekki óhjákvæmilega reitt sig á að seðlabanki Evrópu kaupi ríkisskuldirnar. Stóra spurningin er þessi: Hver mun styðja Ítalíu ef pressa er á mörkuðum og á hvaða grundvelli yrði það gert?“

Sjá viðtalið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.