Á síðasta ári var þjóðhagslegur sparnaður ríflega 29% af vergri landsframleiðslu, og hefur hann ekki verið meiri frá árinu 1965 að því er greiningardeild Arion banka segir. Bendir greiningardeildin þó á að þrátt fyrir að þjóðhagsreikningar bendi til aukins sparnaðar, sé lítil aukning á innlánum og verðbréfaeign heimila í landinu.

Aukningin í sparnaði virðist hins vegar fyrst og fremst felast í niðurgreiðslu skulda, og eru skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu enn að minnka, þó lán til heimilanna hafi vaxið síðustu mánuði. Er aukningin vegna íbúðarlána að langmestu leyti.

Segir Arion banki að fara þurfi aftur til til síldaráranna til að finna tímabil þar sem meiri þjóðhagslegur sparnaður var hérlendis heldur en er nú, en þessi mælieining er það sem er umfram hjá heimilum, fyrirtækjum og hjá öðrum aðilum eftir að búið er að greiða fyrir neyslu.

Sérstaklega er athyglisvert að eigið fé þeirra efnaminnstu hefur aukist mest, meðan innlánaeign og verðbréfaeign hefur minnkað mest hjá þeim efnuðustu.