Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur sett reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir á efnum. Reglugerðin er sett til að innleiða nýja efnavörulöggjöf Evrópusambandsins og leysir af hólmi, í áföngum, um 20 gildandi reglugerðir sem varða framleiðslu, markaðssetning, notkun og efnablöndum.

Nýja reglugerðin hefur víðtækara gildissvið en eldri reglugerðir á sama sviði um efni og efnablöndur. Í nýju reglunum er ekki einungis fjallað um eiturefni og hættuleg efni heldur einnig um algeng efni og efnablöndur, svo sem hreinsiefni og málningu, sem og efni í hlutum á borð við raftæki, föt og húsgögn.

Reglugerðin hefur í för með sér nýjar skyldur fyrir íslensk fyrirtæki. T.d. er fyrirtækjum nú skylt að skrá, hjá Efnastofnun Evrópu, öll efni sem framleidd eru, eða flutt inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins í meira magni en 1 tonn á ári.

Hingað til hafa íslensk yfirvöld borið ábyrgð á áhættumati skráðra efna, en nú færist sú ábyrgð yfir á framleiðendur og innflytjendur efna. Teljist þörf á því eftir slíkt mat verður hættulegum efnum markvisst skipt út fyrir hættuminni staðgengilsefni sem vitað er að koma að sömu notum.

Þetta kemur fram í frétt frá Stjórnarráðinu.