Bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss Reykjavíkur er enn á áætlun þó að tíminn sé orðinn knappur og allt þurfi að ganga upp ef takast á að afhenda húsið á réttum tíma. Framkvæmdir við aðrar byggingar á Austurhafnarreitnum munu þó tefjast frá því sem upphaflega var áætlað og ljóst er að afhending hótels mun tefjast um a.m.k. ár, auk þess sem skipulagsmál hafa tafið framkvæmdir við bílakjallara og viðskiptamiðstöð á lóðinni. Umsjón með uppbyggingu svæðisins hefur félagið Portus, en það er í 50% eigu Landsbankans og 50% eigu Nýsis.

Efniskostnaður hefur hækkað mikið

Efniskostnaður framkvæmdanna hefur hækkað mikið vegna gengisfalls íslensku krónunnar, hækkandi eldsneytisverðs og hækkandi hrávöruverðs. Einnig hefur fjármögnunarkostnaður hækkað, en samkvæmt frétt Morgunblaðsins var upphaflega gert ráð fyrir fjármagnskostnaði upp á 900 milljónir króna, en hann er nú orðinn um 2,3 milljarðar. Þær tölur fengust þó ekki staðfestar.

Landsbankinn fjármagnar verkefnið en Portus ehf. ber kostnað af hærri vöxtum. Hvað efniskostnað varðar segir Helgi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Portus, hækkun á honum lenda að einhverju leyti á Portus, en samningar félagsins við Íslenska aðalverktaka (ÍAV) eru þó að mestu bundnir vísitölu neysluverðs, þó að ákveðnir hlutar samninganna séu bundnir gengi.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .