Framkvæmdir við endurnýjun efri hluta Skólavörðustígs, frá Týsgötu að Njarðargötu munu hefjast í mars. Að sögn Auðar Ólafsdóttur verkefnisstjóra hjá Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar er ráðgert að þeim verði lokið í ágúst. Kynningafundur verður haldinn með hagsmunaaðilum klukkan 17.00 í dag á 5. hæð í Skúlatúni 2.

Verkefnið felst í lagningu snjóbræðslukerfis í götu og gangstéttar. Þá verða lagnir í götunni endurnýjaðar, sem og allt yfirborð. Framkvæmdirnar eru á vegum Framkvæmdasviðs Reykjavíkur, Orkuveitu Reykjavíkur, Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu ehf.