Fjórir af helstu stjórnendum Kaupþings banka fyrir hrun hafa verið handteknir.

Tveir þeirra, Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Steingrímur Kárason, fyrrum framkvæmdastjóri áhættustýringar, voru handteknir þegar þeir komu til landsins í fyrrinótt.

Áður höfðu Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Báðir sitja í einangrun.

Beðið er eftir að Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður bankans, skili sér til landsins en hann hefur verið boðaður til yfirheyrslu og er nú eftirlýstur af Interpol. Hann verður handtekinn þegar hann kemur til landsins.

Til stóð að yfirheyra allt að 20 einstaklinga á meðan Hreiðar og Magnús sitja í gæsluvarðhaldi. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fyrrum framkvæmdastjórn bankans, starfsmenn eigin viðskipta og verðbréfamiðlunar séu þar aðallega undir. Þar á meðal eru Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri Kaupþings, og Guðni Níels Aðalsteinsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjárstýringar bankans.