EFTA-dómstóllinn tekur fram í dómi sínum í Icesave-málinu í morgun að niðurstaðan þýði ekki að innstæðueigendur njóti engrar verndar við þær aðstæður sem geisuðu á fjármálamörkuðum þegar bankarnir féllu enda kynnu ýmsar aðrar reglur að vernda hagsmuni þeirra. Innstæðueigendur nutu t.d. verndar sem fólgin var í öðrum reglum EES-réttar um fjármálamarkaðinn auk þeirrar verndar sem leiddi af aðgerðum eftirlitsaðila, seðlabanka eða ríkisstjórna.

Fram kemur m.a. í tilkynningu frá EFTA-dómstólnum um dóminn að spurningin sem uppi var í Icesave-málinu laut gagngert að því hvort EES-ríki bæru ábyrgð samkvæmt tilskipuninni um innlánatryggingakerfi við aðstæður af því tagi sem uppi voru á Íslandi.

Tilkynningin orðrétt í heild sinni:

„Dómur í máli E-16/11 Eftirlitsstofnun EFTA gegn íslenska ríkinu („Icesave“)

Íslenska bankakerfið hrundi þegar allsherjarkreppa geisaði á fjármálamörkuðum árið 2008. Innstæðueigendur í útibúum Landsbanka Íslands hf. („Landsbankinn“) í Hollandi og Bretlandi misstu í kjölfarið aðgang að innstæðum sínum haustið 2008, þar á meðal sparifjárreikningum sem stofnað var til rafrænt og gengu undir nafninu Icesave. Samkvæmt íslenskum lagareglum sem tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi (hér á eftir „tilskipunin“) var innleidd með varð við þessar aðstæður virk skylda Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til að tryggja endurgreiðslu á lágmarkstryggingu til hvers og eins innstæðueiganda innan ákveðins frests. Engin slík endurgreiðsla átti sér hins vegar stað til þeirra sem áttu innstæðu á Icesave-reikningum í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Bresk og hollensk yfirvöld gripu til þeirra ráða að endurgreiða almennum eigendum innstæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í þarlendum útibúum úr eigin tryggingasjóðum. Innlendar innstæður Landsbankans höfðu þá verið fluttar í „Nýja Landsbankann“ sem íslenska ríkið kom á fót.

Eftirlitsstofnun EFTA („ESA“) ákvað í ljósi þessara atvika að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum. Með málshöfðuninni leitaði ESA eftir viðurkenningu dómstólsins á því að Ísland hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt tilskipuninni og þá sérstaklega samkvæmt 3., 4., 7. og 10. gr. hennar („fyrsta málsástæða“) og/eða fjórðu grein EES-samningsins („önnur og þriðja málsástæða“), sem fjallar um bann við mismunun eftir þjóðerni, þar sem Ísland hefði ekki tryggt endurgreiðslu á lágmarksupphæð til innstæðueigenda á Icesave-reikningum í Hollandi og Bretlandi innan tilskilins frests. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerðist meðalgönguaðili að málinu þar sem hún lýsti yfir stuðningi við kröfur ESA.

EES-ríkin Liechtenstein, Holland, Noregur og Bretland lögðu fram skriflegar athugasemdir í málinu.

Athugasemdir þessara ríkja einskorðuðust allar við fyrstu málsástæðu ESA.

Með dómi sínum í dag sýknaði EFTA-dómstóllinn íslenska ríkið af kröfum ESA.

Varðandi fyrstu málsástæðuna tók dómstóllinn fram að skyldur EES-ríkis réðust af efnislegum ákvæðum þeirrar tilskipunar sem við ætti. Enn fremur benti dómstóllinn á að í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu hefði regluverk fjármálakerfisins sætt endurskoðun og tekið nokkrum breytingum í því skyni að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Dómstóllinn benti hins vegar á að úrlausn þessa tiltekna máls yrði að byggjast á þeim reglum tilskipunarinnar sem giltu þegar atvik málsins áttu sér stað, sem hafi verið áður en umræddar breytingar voru gerðar á regluverki fjármálakerfisins, en með þeim hefði vernd innstæðueigenda verið aukin.

Dómstóllinn taldi að tilskipunin gerði ekki ráð fyrir að EES-ríki væri skuldbundið til að tryggja þá niðurstöðu sem ESA hélt fram um greiðslur til innstæðueigenda á Icesave-reikningum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þegar jafnmiklir erfiðleikar geysuðu í fjármálakerfinu og raunin hefði verið á Íslandi. Þannig léti tilskipunin því að mestu leyti ósvarað hvernig bregðast ætti við þegar tryggingarsjóður gæti ekki staðið undir greiðslum. Dómstóllinn benti í því sambandi á að eina ákvæði tilskipunarinnar sem tæki til þess þegar tryggingarsjóður innti ekki greiðslu af hendi væri að finna í 6. mgr. 7. gr. hennar, en þar væri kveðið á um að innstæðueigendur gætu höfðað mál gegn því innlánatryggingarkerfi sem í hlut ætti. Hins vegar kæmi ekkert fram í tilskipuninni um að slík réttarúrræði væru tiltæk gegn ríkinu sjálfu eða að ríkið sjálft bæri slíkar skyldur. Þá taldi dómstóllinn að fyrsta málsástæða ESA hefði hvorki stoð í dómaframkvæmd né öðrum reglum sem teknar hefðu verið inn í EES-samninginn.

Dómstóllinn tók þó fram að þessi niðurstaða þýddi ekki að innstæðueigendur nytu engrar verndar við þessar aðstæður þar sem ýmsar aðrar reglur kynnu að vernda hagsmuni þeirra. Þannig nytu innstæðueigendur þeirrar verndar sem fólgin væri í öðrum reglum EES-réttar um fjármálamarkaðinn, auk þeirrar verndar sem leiddi af aðgerðum eftirlitsaðila, seðlabanka eða ríkisstjórna. Spurningin sem uppi væri í þessu máli lyti hins vegar gagngert að því hvort EES-ríki bæru ábyrgð samkvæmt tilskipuninni um innlánatryggingakerfi við aðstæður af því tagi sem uppi voru á Íslandi. Um seinni málsástæðuna komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að meginregla EES-samningsins um bann við mismunun gerði þá kröfu að tryggingakerfi mismunaði ekki innstæðueigendum, þar með talið um það hvernig fjármunir tryggingarsjóðs væru nýttir. Þess háttar mismunun væri óheimil samkvæmt tilskipuninni. Hins vegar hefðu innlendar innstæður verið fluttar úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja áður en Fjármálaeftirlitið gaf út þá yfirlýsingu sem gerði reglur tilskipunarinnar virkar.

Af því leiddi að reglur tilskipunarinnar um vernd innstæðueigenda hefðu aldrei tekið til innstæðueigenda í íslenskum útibúum Landsbankans. Samkvæmt því hefði flutningur innlendra innstæðna – óháð því hvort sá flutningur hefði almennt séð falið í sér mismunun – ekki fallið undir þá reglu um bann við mismunun sem fram kæmi í tilskipuninni sjálfri, auk þess sem flutningurinn gæti ekki talist brot á reglum tilskipunarinnar eins og þær yrðu skýrðar með hliðsjón af 4. gr. EESsamningsins.

Af þeim sökum yrði að hafna annarri málsástæðu ESA. Að því er snerti þriðju málsástæðuna, tók dómstóllinn fram að samkvæmt viðurkenndri dómaframkvæmd leiddi það af meginreglunni um bann við mismunun í 4. gr. EES-samningsins að sambærileg mál fengju sambærilega úrlausn og þá jafnframt að greint væri á milli mála sem væru ólík.

Dómstóllinn taldi enn fremur að ESA hefði takmarkað umfang þessarar málsástæðu með skýrum hætti. Þannig hefði ESA talið að brot íslenska ríkisins fælist í því að ekki hefði verið tryggt að eigendur innstæðna á Icesave-reikningum í Hollandi og Bretlandi fengju þá lágmarkstryggingu greidda sem kveðið væri á um í tilskipuninni og þá innan þeirra tímamarka sem þar væri kveðið á um, með sama hætti og það hefði gert með eigendur innstæðna á innlendum reikningum. Þá hefði ESA einnig sérstaklega tiltekið að greiðslur til innlendra og erlendra innstæðueigenda umfram lágmarkstrygginguna væru ekki til umfjöllunar í málshöfðun stofnunarinnar. Í ljósi þess hvernig ESA hefði sjálf takmarkað málshöfðun sína, benti dómstóllinn á að úrlausn þessarar málsástæðu myndi ráðast af því hvort Ísland hefði borið sérstaka skyldu til að tryggja að eigendur innstæðna á Icesave-reikningum í Hollandi og Bretlandi fengju greiðslur. Þar sem dómstóllinn hefði aftur á móti þegar komist að þeirri niðurstöðu að tilskipunin, jafnvel þótt hún væri skýrð með hliðsjón af 4. gr. EES-samningsins, legði enga skyldu á íslenska ríkið að tryggja greiðslur til eigenda innstæðna á Icesave-reikningum í Hollandi og Bretlandi, þá væri einungis hægt að fallast á þessa málsástæðu ESA ef slíka skyldu mætti leiða af 4. gr. EES-samningsins einni og sér. Dómstóllinn taldi hins vegar að slík krafa væri ekki fólgin í meginreglu 4. gr. EES-samningsins um bann við mismunun. Ekki væri unnt að leiða sérstaka skyldu íslenska ríkisins af þessari meginreglu til að grípa til aðgerða sem myndu ekki einu sinni tryggja jafnræði með innlendum eigendum innstæðna í Landsbankanum og eigendum innstæðna í útibúum bankans í öðrum EES-ríkjum. Af þeim sökum yrði að hafna þriðju málsástæðu ESA og þar með öllum málatilbúnaði stofnunarinnar.“