Síðan á síðasta ári hafa EFTA og Mercosur, fríverslunarsamtök ríkja Suður-Ameríku, staðið í könnunarviðræðum um fríverslun milli ríkjasamtakanna. Önnur lota í könnunarviðræðunum fer fram dagana 7.-8. júní. Fyrri lotan fór fram á síðasta ári, en vonast er til að viðræðunum ljúki fyrir árslok eða á fyrri hluta næsta árs samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Niðurstöður könnunarviðræðnanna verða síðan nýttar sem grundvöllur fyrir ákvörðun samningsaðila um hvort farið verði í formlegar fríverslunarviðræður, að sögn ráðuneytisins.

Ísland á talsverð viðskipti við aðildarríki Mercosur. Til að mynda fluttu Íslendingar inn vörur frá Brasilíu fyrir um 34 milljarða króna árið 2014 samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Viðræðurnar mættu ganga hraðar fyrir sig

Svo virðist sem allt loft sé úr þeim efnahagsuppgangi sem varð í Suður-Ameríku á fyrsta áratug aldarinnar. Hagvöxtur á svæðinu hefur dregist saman mörg ár í röð og AGS spáir því að hann verði neikvæður um 2 prósent á þessu ári. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá ríkir hörmungarástand í efnahagsmálum Venesúela og jafnframt hafa miklar væringar verið í brasilískum stjórnmálum.

Bæði Venesúela og Brasilía eru aðildarríki Mercosur. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafa ekki orðið tafir á því að fríverslunarviðræður milli EFTA og Mercosur hefjist. Ákvörðun um að hefja slíkar viðræður hafi í raun ekki verið tekin enn.

Ráðuneytið segir að könnunarviðræðurnar mættu vissulega ganga hraðar fyrir sig, þó alltaf hafi mátt gera ráð fyrir að þær tækju nokkurn tíma.

Ítarlega er fjallað um stöðu mála í Suður-Ameríku í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .