Raforkusala til kísilvers Thorsil í Helguvík hefur hlotið samþykki eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), en skrifað var undir samninginn í maí síðastliðnum.

Fær kísilverið allt að 55 megavött af afli sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Ráðgert er að kísilverið verði tekið í notkun árið 2018 og mun það framleiða um 54.000 tonn af kísilmálmi á ári með um 130 starfsmenn.

Felur ekki í sér ríkisaðstoð

Samningurinn var háður því skilyrði að ESA myndi staðfesta að samningurinn fæli ekki í sér ríkisaðstoð og kynntu þeir sér arðsemisútreikninga Landsvirkjunar og Thorsil sem lagðir voru til grundvallar samningunum.

Er það niðurstaða ESA að samningurinn sé gerður á markaðskjörum og feli þar af leiðandi ekki í sér ríkisaðstoð. Lagði Landsvirkjun fram gögn sem sýna að samningurinn sé arðsamur og skilmálar hans slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður.