Guðmundur Snorrason, fyrrverandi formaður Félags löggiltra endurskoðenda og einn eigenda PwC, segir auðvelt að benda á það eftir hrun bankanna að ýmsu hefði mátt haga á annan veg. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýni að það skorti heildaryfirsýn til þess að meta hvert meinið var í íslensku bankakerfi fyrir hrun þess, í október 2008. Hann segist ekki sjá hvernig endurskoðendur hafi átt að búa yfir meiri vitneskju en Fjármálaeftirlitið, sem hafi ekki geta greint kerfisáhættuna sem var fyrir hendi.

„Ég tel skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vera yfirgripsmikla og vel unna í flesta staði þó að þar séu eflaust atriði sem má gagnrýna og draga í efa eins og gengur og gerist með öll mannanna verk. Með skýrslunni fékkst í fyrsta skipti nokkuð skýr mynd af stöðu bankanna sem hrundu í október 2008 og þá miklu innbyggðu kerfisáhættu sem var í íslensku bankakerfi. Eftir að allt er hrunið er auðvelt að koma fram með gagnrýni á þann veg að eignir hafi verið ofmetnar í ársreikningum og vísa á endurskoðendur bankanna.

Ég tel hins vegar að það verði að skoða þessi mál í ljósi aðstæðna á hverjum tíma og einmitt út frá þeirri staðreynd að enginn hafði þá heildaryfirsýn sem nauðsynleg var til þess að greina stöðu mála. Mér finnst það augljós og áleitin spurning, hvaða upplýsingar endurskoðendur áttu að hafa til þess að greina þá kerfislægu áhættu sem var í bankakerfinu þegar þeir árituðu ársreikninga 2007 í ársbyrjun 2008 .

Í því sambandi er hægt að nefna að Fjármálaeftirlitið (FME) virtist  ekki sjá kerfisáhættuna  skömmu fyrir hrun. Fréttatilkynning frá því 14. ágúst 2008 frá FME, um að staða íslensku bankanna væri sterk og eiginfjárhlutfall þeirra sýndi það, segir mikla sögu í þeim efnum. Að baki þessari yfirlýsingu FME voru álagspróf á stöðu bankanna. Ég get ekki séð hvernig endurskoðendur áttu að geta dregið fram það sem FME gat ekki.“

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Guðmund Snorrason í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.