Verðbreytingar á bensíni hérlendis og verðþróun hráolíu fylgjast venjulega að, með nokkrum undantekningum þó.   Í half fimm fréttum Kaupþings í gær segir að svo virðist sem verðlagning olíufélaganna taki fyrst og fremst mið af verðþróun á hráolíu og bensíni á heimsmörkuðum, gengi íslensku krónunnar gagnvart dollara og þróun fjármagnskostnaðar.

„Heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað um 52% á einu ári miðað við um 68% hækkun á hráolíu á sama tíma. Heimsmarkaðsverð á bensíni er jafnan næmara fyrir eftirspurnadrifnum þáttum eins og þróun landsframleiðslu o.s.frv. en hráolíuverð tekur oftar mið af framboðstengdum þáttum. Samdráttur í landsframleiðslu vesturlanda er því líklegri til að koma fyrr fram í heimsmarkaðsverði á bensíni en hráolíu,“ segir í fréttum Kaupþings.

Jafnframt þykir líklegt að spákaupmennska á hráolíu eigi einhvern þátt í hækkunum á hráolíu umfram bensín.

Sýnt þykir samkvæmt Kaupþingi að gengislækkun krónunnar og aukin fjármagnskostnaður hérlendis komi einnig fram í hærra útsöluverði á eldsneyti, en íslenska krónan hefur veikst um 30% gangvart dollaranum síðan um áramót. Líklegt má telja að fjármagnskostnaður og kostnaður við framvirka samninga og varnir hafi aukist verulega að undaförnu í kjölfar mikils flökts á krónunni og hráolíu ásamt því sem lánskjör hafa versnað.

Í fréttum Kaupþings segir að ljóst þyki að útsöluaðilar á eldsneyti noti álagningu á eldsneyti til að jafna sveiflur á heimsmarkaðsverði á bensíni og krónunni. Í því ljósi er líklegt að útsöluaðilar hafi tekið á sig skerta álagningu í kjölfar veikingar krónunnar í vor og reyni nú að vinna upp tapið þegar ró virðist vera að færast yfir á innlendum gjaldeyrismarkaði á sama tíma og heimsmarkaðsverð á bensíni gefur eftir. Áætlað meðaltal álagningar olíufélaganna á hvern lítra af 95 oktana (þjónustuverð) eldsneyti er í kringum 36%, þegar tekið er tillit til opinberra gjalda og leiðrétt fyrir gengi íslensku krónunnar. Hér er ekki tekið tillit til uppskipunargjalda, rýrnunar, flutningskostnaðar, rekstrarkostnaðar, fjármagnskostnaðar og annarra tilfallandi gjalda.