Baráttann um bandaríska tölvuframleiðandann Dell, sem gæti hlaupið á 24 milljörðum dala, skiptir bandaríska banka afar miklu máli. Þrír aðilar bítast um Dell, stofnandinn Michael Dell, fjárfestingafyrirtækið Blackstone Group og fjárfestirinn Carl Icahn.

Allir þrír eru með sinn banka sér til halds og trausts og bankarnir fá allir greitt fyrir þá þjónustu. Þessar greiðslur eru þó ekki nema smámynt í samanburði við þóknanirnar sem renna til bankanna sem vinna fyrir þann sem endanlega kaupir Dell. Þeir bankar munu sjá um að fjármagna kaupin og þóknanirnar gætu orðið um 400 milljónir dala. Það yrði stærsta einstaka þóknunin í yfirtökusamningi í þrjú ár, þótt hún muni væntanlega skiptast á milli nokkurra banka því væntanlegir kaupendur eru allir með nokkra samstarfsbanka með sér.