Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka segir það eftiráspeki að gagnrýna ákvörðun um að selja hluti á lægra gengi. Þetta kemur fram í aðsendri grein frá Halldóri sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Eins og greint hefur verið frá fengu fjárfestahópur, undir forystu Bertrand Kahn og Orra Haukssonar, og vildarvinir Arion banka að fjárfesta í Símanum á lægra verði.

Halldór segir að ómögulegt hafi verið að sjá fyrir hvernig eftirspurnin í útboðinu myndi vera þegar ákvörðun um lægra gengi hafi verið tekin. Halldór tekur dæmi um eftirspurn í fyrri útboðum sem Arion banki hefur komið að en þar hafi niðurstaða útboðs verið annað hvort undir miðgildi eða nokkuð frá efri mörkum verðbils. Verðbil í útboði Símans hafi verið 2,7-3,1 krónur á hlut en meðaltalsútboðsgengi endaði í 3,33 krónur á hlut.

Hóparnir sem keyptu á lægra samþykktu einnig tímabundið sölubann á hlutunum. Fjárfestahópurinn sem keypti á genginu 2,5 krónur á hlut megi ekki selja hlutina fyrr en 1. janúar 2017 og vildarvinir Arion banka sem keyptu á genginu 2,8 krónur á hlut megi ekki selja fyrr en þremur mánuðum eftir skráningu í kauphöll.

Halldórs segir því eðlilegt að þeim bjóðist bréfin á lægra verði til að endurspegla aukna áhættu í kaupunum.