Áform Joe Biden Bandaríkjaforseta um eftirgjöf á námslánum milljóna Bandaríkjamanna mun kosta meira en 400 milljarða dala yfir þriggja áratuga tímabil, samkvæmt útreikningum Fjárlagaskrifstofu þingsins (CBO).

Áformin fela í sér 10 þúsund dala eftirgjöf, eða sem nemur 1,4 milljónum króna, fyrir einstaklinga sem þéna minna en 125 þúsund dali, eða undir 18 milljónir króna, á ári. Styrkþegar Pell Grant, opinbers styrks fyrir nemendur sem glíma við mestu fjárþörfina, munu eiga möguleika á allt að 20 þúsund dala eftirgjöf, eða um 2,9 milljónir króna.

Í umfjöllun Financial Times segir að Biden ríkisstjórnin hafi haldið aftur að því að birta eigið kostnaðarmat vegna tillögunnar. Talsmaður ríkisstjórnarinnar hefur gefið út að aðgerðin nái til meira en 40 milljónir Bandaríkjamanna.

CBO viðurkenndi að mikil óvissa ríkir í kringum kostnaðarmatið sitt, einkum varðandi hversu mikið lántakendur myndu greiða til baka ef ekki væri ráðist í framangreindar aðgerðir og hversu mikið þeir muni greiða til baka í tilviki eftirgjafar á hluta af námslánunum.