Fréttir af niðurfærslu skulda vegna hlutabréfaviðskipta starfsmanna Kaupþings hafa valdið fjaðrafoki. Áhugavert er að skoða málið út frá skattalegu sjónarhorni.

Ef skuldir starfsmanna Kaupþings, vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum, voru felldar niður, gæti það leitt til þess að starfsmenn bankans þyrftu að greiða samtals 15 til 18 milljarða króna í skatt vegna þess á næsta ári. Misvísandi upplýsingar eru um það hvort skuldirnar hafi verið niðurfelldar eður ei.

Hvernig sem landið liggur í þeim efnum er áhugavert að velta fyrir sér skattalegum áhrifum slíkrar niðurfellingar því hér er verið að leika sér að eldinum, ef þannig má að orði komast.

Til þess að útskýra málið þarf að víkja að skattalögum. Niðurfelling skulda starfsmanna bankans væri túlkuð sem laun í öðru formi en hefðbundin launagreiðsla. Hún yrði skattlögð og skattskyld eins og hver önnur laun. Talan 14-18 milljarðar króna er 35,72% af heildarniðurfellingunni, en talið er að starfsmenn Kaupþings hafi skuldað bankanum allt að 40-50 milljarða króna.

Samkvæmt skattalögum ber þeim sem fá eftirgjöf skulda frá vinnuveitanda að telja það að fullu til tekna og vinnuveitanda ber að gera grein fyrir því á launamiða.

_______________________________________

Nánar er fjallað um skattskyldu vegna niðurfelldra skulda tilkominna vegna hlutabréfakaupa í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .