Þótt fjórir sparisjóðir sem að stórum hluta eru í eigu ríkisins hafi sýnt hagnað á síðasta ári er þar með ekki öll sagan sögð. Hagnaðurinn stafar af tekjufærslu vegna eftirgjöf skulda við Seðlabankann og þegar búið er að draga þá tekjufærslu frá kemur í ljós tap af rekstri allra fjögurra sparisjóðanna. Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu en sparisjóðirnir sem um ræðir eru Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Þórshafnar, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Vestmannaeyja.

Regluleg starfsemi SPÞ skilaði t.d. um 115 milljón króna tapi í fyrra þótt hagnaður ársins hafi samkvæmt ársreikningi verið 510 milljónir. Hjá SPN var tap af reglulegri starfsemi 180 milljónir en hagnaður samkvæmt ársreikningi 87 milljónir. Sparisjóður Bolungarvíkur skilaði 361 milljón króna tapi af reglulegri starfsemi en hagnaður samkvæmt ársreikningi nam 1,9 milljörðum. Þá tapaði Sparisjóður Vestmannaeyja 400 milljónum í reglulegri starfsemi samkvæmt Morgunblaðinu.