Bloomberg fréttastofan segir áherslu núverandi ríkisstjórnar Lars Lokke Rasmussen í Danmörku á að draga úr skattbyrði almennings í landi sem býr við hvað mestu skattbyrði í heiminum sé drifin áfram af hægrisinnaðri hugmyndafræði stjórnvalda.

Segir fréttin þessar áherslur vera tilkomnar vegna þess að danskt þjóðfélag hafi byrjað hægrisinnaða þróun um aldamótin undir forystu Anders Fogh Rasmussen, fyrrum leiðtoga frjálslynda flokksins Venstre.

Bera þeir tillögur ríkisstjórnarinnar í Danmörku um niðurskurð í velferðarkerfinu við svipaðar hugmyndir sem lönd eins og Grikkland og Ítalía og önnur sem bera miklar skuldir hafa neyðst til að fara í á síðustu árum.

Stefndu að 5 prósentustiga skattalækkun

Í tilfelli Danmerkur sé niðurskurðurinn hins vegar óþarfur en drifinn áfram af hugmyndafræði, og vísa þeir í skýrslu Evrópusambandsins sem segir samkeppnisstöðu landsins góða, atvinnuleysi sé nánast ekki til staðar og lítil hætta sé á fjárhagslegum óstöðugleika í landinu. Jafnframt er vitnað í hagfræðiprófessor því til stuðnings.

Fjallar greinin síðan um áætlanir sem lagðar voru á endanum á hilluna á síðasta ári um að lækka lægsta skattþrepið um 5 prósentustig á sama tíma og ætlunin var að hækka laun þeirra lægst launuðu um 7% að meðaltali.

Sjá lausn í fjölgun ungs fólks og eldri borgara á vinnumarkaði

Frekari áætlanir í þessa átt séu þó í pípunum og að ríkisstjórnin trúi því að til þess að hafa efni á frekari aðgerðum til að hafa hefni á skattalækkununum sé með minni útgjöldum og með því að fjölga fólki á vinnumarkaði.

Það sé hins vegar erfitt að gera með innflytjendum enda pólítísk þróun í landinu verið í þá átt að slíkt sé orðið erfiðara, en hins vegar sé hægt að ýta fleira af ungu fólki inn á vinnumarkaðinn sem og hækka eftirlaunaaldurinn.

Árið 2015 var eftirlaunaaldurinn hækkaður úr 65 ára aldri í 67 ára aldur, en nú eru sagðar uppi áætlanir um að hækka hann um hálft ár til viðbótar á sama tíma og nemendum verði ýtt frekar út á vinnumakrkaðinn með því að beita í frekari mæli námslánum heldur en styrkjum.