Samstarf Kauphallar Íslands og Fjármálaeftirlitsins (FME) hefur verið endurskoðað í kjölfar breytinga á verðbréfaviðskiptalögum sem tóku gildi 1. júlí sl. Fyrr á árinu kynntu Kauphöllin og FME yfirlýsingu um samstarf og verkaskiptingu í eftirliti á verðbréfamarkaði. Megintilgangur samstarfsins er að auka skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með markaðsaðilum.

Kauphöllin og FME hafa nú birt endurskoðaða yfirlýsingu á heimasíðum sínum. Þar kemur m.a. fram að Fjármálaeftirlitinu beri að hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (vvl.) og reglna settra samkvæmt þeim. Auk þess sé Fjármálaeftirlitinu heimilt að fela skipulegum verðbréfamarkaði eftirlitsverkefni samkvæmt lögunum. Fjármálaeftirlitið og Kauphöllin hafa haft samstarf um framkvæmd eftirlits á verðbréfamarkaði og verkaskiptingu um langt skeið. Með yfirlýsingunni felur Fjármálaeftirlitið Kauphöllinni tiltekin eftirlitsverkefni samkvæmt framangreindum lögum. Sérstakir samningar verða gerðir um eftirlitsverkefni sem lúta að yfirlestri og staðfestingu lýsinga og tilboðsyfirlita, og tekur yfirlýsingin um samstarf ekki til þeirra.

Meginmarkmið með yfirlýsingunni er að tryggja áframhaldandi gott samstarf FME og Kauphallarinnar í eftirlitsmálum, og tryggja með þeim hætti:
- Skilvirkni í rannsókn og meðferð eftirlitsmála.
- Að ábyrgð hvors aðila og verkaskipting sé skýr.
- Að tvíverknaði í eftirliti verði haldið í lágmarki.
- Að upplýsingaskipti á milli aðila verði greið.
- Að tryggð verði samræmd viðbrögð Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar þegar upp koma mál sem líkur eru til að hafi mikla þýðingu á fjármálamarkaði.

Ábyrgð og verksvið aðila
Fjármálaeftirlitið hefur almennt eftirlit með framkvæmd verðbréfaviðskiptalaga (nr. 33/2003) og reglna settra samkvæmt þeim. Auk þess hefur FME eftirlit með starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða samkvæmt lögum nr. 34/1998.
Kauphöll Íslands er kauphöll og skipulegur tilboðsmarkaður í skilningi þeirra laga. Eftirlitsstarfsemi Kauphallarinnar felst fyrst og fremst í því að fylgjast með því að útgefendur verðbréfa og kauphallaraðilar starfi í samræmi við khl. og reglur Kauphallarinnar.