Allsherjarnefnd fundaði nú í morgun um símhleranir, en tilefni fundarins var að kanna hvort nokkuð mætti betur fara við eftirlit með slíkum hlerunum. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála hefur ríkissaksóknari eftirlit með símhlustunum og öðrum sambærilegum úrræðum. Ríkissaksóknari mætti til fundarins í morgun til þess að gera grein fyrir hvernig eftirlitinu hefur verið háttað.

Ríkissaksóknari gaf út fyrirmæli í apríl 2012 um framkvæmd eftirlits með hlustunum lögreglu. Þar kemur meðal annars fram að lögreglu beri að tilkynna ríkissaksóknara um lok hlustunar, hvenær og með hvaða hætti hlustunarþola var tilkynnt um hana. Tilkynningar þessar eiga að sendast á sex mánaða fresti með því að fylla út þar til gerðan lista.

Þarf betra eftirlit með framkvæmd hlustana

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður mætti á fundinn fyrir hönd Lögmannafélags Íslands og benti á atriði sem hann taldi að betur mættu fara við veitingu dómsúrskurða um símhlustanir og framkvæmd eftirlitsins.

Reimar segir veitingu dómsúrskurða um símhlustanir stundum ekki byggða á nægilega vel ígrunduðu máli. Þannig séu beiðnir um hlustanir stundum byggðar á ónafngreindum heimildarmönnum lögreglu eða varða rannsókn brota sem ætlað er að hafi átt sér stað fyrir löngu síðan. Því séu ef til vill ekki til staðar þær brýnu ástæður sem verði að réttlæta hlustanir. Þrátt fyrir vafatilvik sem þessi hafi beiðnir um hlustanir verið samþykktar í 99,3% tilvika á árunum 2008 til 2012.

Þá segir Reimar að hafa þurfi betra eftirlit með framkvæmd hlustana. „Til dæmis er ekki til staðar kerfi sem tryggir rekjanleika á úrvinnslu þessara gagna, sem gerir það að verkum að lögregla getur  hlustað á forboðin símtöl, t.d. milli verjenda og sakborninga, án þess að skilja eftir sig nokkra slóð. Það eru staðfest dæmi um það að slík símtöl hafi verið hlustuð og það vekur auðvitað grunsemdir um að það kunni að hafa verið í meiri mæli heldur en viðurkennt er.“

Reimar telur að búa þurfi dómstólum betri starfsskilyrði til þess að fara yfir beiðnir um símhlustanir. „Einnig þurfa verjendur að fá betri aðstöðu til að kanna hvernig farið er með gögn sem er með aflað með þessum hætti og þá þarf að skoða hvernig lagaheimildirnar eru mótaðar í dag.“

Þá áréttaði Reimar á fundinum að Lögmannafélagið hefði leitað eftir samstarfi við ríkissaksóknara um þessi mál frá fyrri hluta árs 2013. Þeim erindum hefði ekki verið sinnt af hálfu ríkissaksóknara þrátt fyrir að þau hefðu verið margítrekuð.