Eftirlit með ræktun og uppskeru grænmetis er takmarkað, er meginniðurstaðan í skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem birt var í dag, en áherslan hefur verið á eftirlit á síðari stigum svo sem við pökkun.

Fram kemur í skýrslunni að eftirlit með grænmetisframleiðslu eftir uppskeru, þ.e. við pökkun á framleiðslustað, er að mestu leyti í samræmi við löggjöf EES samningsins. Hins vegar kemur jafnframt fram að eftirlit með ræktun og uppskeru grænmetis er takmarkað og meiri áhersla hefur verið á seinni stig framleiðslunnar.

Opinbert eftirlit með ræktun og uppskeru grænmetis er á ábyrgð Matvælastofnunar (MAST) en Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga annast eftirlit með seinni þáttum framleiðslunnar, þar með talið pökkun á framleiðslustað og dreifingu. Opinbert eftirlit MAST með ræktun og uppskeru grænmetis er þó takmarkað. Skilvirk samræming er ekki alltaf tryggð milli eftirlitsaðila. Greiningaraðferðir hjá opinberri rannsóknarstofu eru ekki vottaðar í öllum tilfellum. Ísland hefur ekki tilnefnt viðurkennda tilvísunarrannsóknarstofu um rannsóknir á örverum og efnafræðilegum þáttum sem ber að rannsaka.

Í skýrslunni eru tilmæli til íslenskra stjórnvalda um að tryggja nauðsynlegar úrbætur og styrkja núverandi eftirlitskerfi til að bæta úr þeim annmörkum sem í ljós hafa komið. Stjórnvöld hafa tekið athugasemdir sem settar eru fram í skýrslu ESA til greina og lagt fram tímasetta aðgerðaráætlun sem nú er til skoðunar hjá ESA. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðauka við skýrsluna.