*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 12. desember 2019 13:01

Eftirliti með skráningu bótaþega hætt

Vinnumálastofnun má ekki lengur fylgjast með IP tölum atvinnulausra. Ráðlagt hvernig ætti að svara eftirliti um staðsetningu.

Ritstjórn
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar sem þarf að bregðast við úrskurði Persónuverndar fyrir 28. janúar næstkomandi.
Haraldur Jónasson

Persónuvernd hefur fyrirskipað Vinnumálastofnun að hætta að fylgjast með staðsetningu IP talna atvinnuleitenda sem skrá sig vikulega til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því er Morgunblaðið greinir frá.

Segir Persónuvernd að eftirlitið með að viðkomandi sé staddur hér á landi samrýmist ekki lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, meðan ekki er hægt að staðfesta áreiðanleika þeirra. Á sama tíma eru lög um að þiggjendur bóta þurfi að vera staddir hér á landi skýr, utan sérstakra heimilda.

Helmingi fleiri taka íslenskar bætur löglega erlendis

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun nóvember hefur síðustu ár verið helmingsaukning þeirra sem nýta sér heimild til að þiggja bætur erlendis í þrjá mánuði meðan leita vinnu.

Tveir þriðju þeirra sem hafa nýtt sér heimildina síðustu ár eru pólskir ríkisborgarar, en munurinn á atvinnuleysisbótum þar í landi og hér er ríflega tífaldur, auk þess sem hann er stighækkandi eftir starfsaldri öfugt við hér á landi þar sem hægt er að komast á fullar atvinnuleysisbætur eftir ársvinnu.

Þá var haft eftir Jóngeir H. Hlinasyni hagfræðingi hjá Vinnumálastofnun að þess utan hefði stofnunin ýmar leiðir til að fylgjast með því að þiggjendur íslenskra atvinnuleysisbóta séu staddir á landinu þó skrái sig rafrænt.

Tæplega 16 milljónir endurheimtar vegna viðurlaga við bótasvindli

Sérstök eftirlitsdeild í stofnuninni fylgist með skráningu IP talnanna eftir löndum til að fyrirbyggja mögulegt bótasvindl, en oft eru skýringar á því að IP tölur þeirra sem skrá sig í bætur séu skráðar erlendis.

Í ársskýrslu stofnunarinnar kemur fram að fjölda slíkra mála hafi þó lokið með viðurlagsákvörðunum, árið 2017 voru til að mynda 486 bréf send út vegna gruns en af þeim lauk 160 málum með viðurlögum. Nam heildarskuld þeirra 15,5 milljónum króna. Í fyrra voru fleiri eða 664 slík bréf send út, vegna staðfestinga á innskráningum erlendis frá, og 161 máli lokið með viðurlagsákvörðun.

Fékk ráðleggingu frá starfsmanni stofnunarinnar hvernig ætti að svara eftirliti hennar

Úrskurður Persónuverndar kemur til vegna máls konu sem kvartaði yfir því að stofnunin hefði unnið með upplýsingar um IP tölu hennar utan þess tíma er hún þáði bæturnar. Hún sagði upplýsingarnar ekki réttar og vísaði í að hún hefði notað VPN forrit til að skrá sig í Bretlandi. Jafnframt sagðist hún hafa fengið ráðleggingu um að segja það frá starfsmanni stofnunarinnar þegar hún var innt eftir því hvort hún væri stödd hér á landi eður ei.

Haft er eftir Unni Sverrisdóttur forstjóra Vinnumálastofnunar að alltaf sé tekið til greina ef fólk segist vera með erlendar nettengingar. Hún segir viðbrögð stofnunarinnar í skoðun en staðfesta þarf fyrir 28. janúar næstkomandi að farið hafi verið að fyrirmælum Persónuverndar.