Samruni Wow Air ehf. og Iceland Express ehf. varð í október 2012 og fengu þau undanþágu frá samkeppnislögum til að láta hann koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallaði um hann.

Athugun Samkeppniseftirlitsins á flugmarkaðnum leiðir til þeirrar niðurstöðu að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna samruna Wow Air og Iceland Express, að því er segir í tilkynningu eftirlitsins. Telur eftirlitið að með samrunanum sé ekki að verða til markaðsráðandi staða sameinaðs fyrirtækis, styrking á slíkri stöðu eða að samkeppni raskist verulega. Á þetta við jafnvel þó talsverð samþjöppun verði vegna samrunans á einstökum áætlunarleiðum, t.d. í flugi milli Keflavíkur og Berlínar. Í þessu sambandi skipta yfirburðarstaða Icelandair miklu máli.

„Athugun Samkeppniseftirlitsins leiðir í ljós mikla yfirburði Icelandair í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Skiptir þar mestu máli mjög há markaðshlutdeild félagsins og jafnvel einokun á nokkrum af helstu áætlunarleiðum til og frá landinu. Leiðarkerfi Icelandair sem felur í sér tengiflug milli áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku veitir félaginu einnig mikið markaðsforskot. Í því sambandi hefur áhrif að flugmálayfirvöld hér á landi hafa veitt Icelandair forgang að mikilvægustu afgreiðslutímum í Keflavíkurflugvelli. Þessi forgangur skapar Icelandair sterka stöðu og gerir nýjum aðilum t.a.m. mjög erfitt um vik að hefja tengiflug til Norður-Ameríku,“ segir í tilkynningunni.