*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 8. desember 2019 17:31

Eftirlitið meira að utan

Forstjóri Deloitte segir mun meira aðhald fólgið í úttektum að utan en innlendum eftirlitsaðilum.

Jóhann Óli Eiðsson
Þorsteinn Pétur Guðjónsson settist í stól forstjóra Deloitte á árinu en starfsferill hans þar spannar tæpa tvo áratugi.
Eyþór Árnason

Í vor skilaði ríkislögreglustjóri áhættumati vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka en þar var fjallað um ýmsa starfsemi sérfræðinga. Í þeim hópi voru endurskoðendur, en áhætta er laut að þeim var metin veruleg. Nefnt var að í einhverjum tilfellum hefðu borist tilkynningar frá endurskoðendum um grun um peningaþvætti og að eftirlit með störfum þeirra hefði verið aukið undanfarið. Þrátt fyrir það væri hætta á að þeir sýndu ekki fullnægjandi aðgát og litu fram hjá tengdum aðilum og orðspori við vinnu sína.

„Við tökum auðvitað öllum ábendingum fagnandi um hvað megi betur fara, en staðreyndin er þó sú að við erum með öflug kerfi og viðmið sem geta gefið slíka háttsemi til kynna. Það er hins vegar þannig að við getum ekki alltaf skoðað hvert einasta smáatriði sem kemur upp á hverju einasta augnabliki. Gæði í endurskoðun og allri okkar vinnu er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur og við erum sífellt að reyna að gera betur í þessum efnum,“ segir Þorsteinn Pétur Guðjónsson, sem tók við sem forstjóri Deloitte nú á dögunum.

Með nýrri heildarlöggjöf um endurskoðendur árið 2007 var þeim gert skylt að vera í Félagi löggiltra endurskoðenda (FLE) og færðist eftirlit með ýmsum þáttum starfsins þá til félagsins. Aðaleftirlitið sé hins vegar ekki innanlands.

„Úr Deloitte alþjóðaumhverfinu kemur mun meira aðhald en nokkurn tímann frá íslenskum aðilum. Á hverju einasta ári erum við tekin út og innri ferlar grandskoðaðir. Umhverfi endurskoðenda er síðan kvikt, bæði lög og reikningsskilastaðlar eru sífellt að taka breytingum. Sökum þess þurfum við mjög reglulega að sækja okkur endur menntun. Ég veit til að mynda um fáar aðrar stéttir sem þurfa að sækja jafnmikla endurmenntun, til að viðhalda réttindum, og endurskoðendur. Eftirlitið að utan miðar að því marki að við séum í hvívetna að vinna starf okkar í samræmi við þær reglur sem gilda,“ segir forstjórinn.

Ný heildarlög um endurskoðun og endurskoðendur taka gildi um áramótin en frumvarpið var um skeið stopp hjá þinginu þar sem ekki var ljóst hvar eftirlit með þeim skyldi hýst. Viðraði Sigurður B. Arnþórsson, framkvæmdastjóri Félags löggiltra endurskoðenda, þá hugmynd að komið yrði á fót sameiginlegu eftirliti fyrir til dæmis endurskoðendur, lögmenn og fasteignasala.

„Fámennið hér á landi, bæði almennt og sérstaklega í hópi endurskoðenda, gerir eftirlitsstörf auðvitað að einhverju leyti erfiðari. Ég tel ekki úrslitaatriði hvar eftirlitið endar. Öllu máli skiptir að það sé hagkvæmt, skilvirkt og að nauðsynleg reynsla og þekking sé til staðar til að sinna því. Eftirlitið verður að vera þannig úr garði gert að traust ríki um það svo allir geti sinnt sínu hlutverki,“ segir Þorsteinn.

Nánar er rætt við Þorstein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.