Stærstu endurskoðunarfyrirtæki Bretlands hafa fengið gagnrýni frá Breska reikningsskilaráðinu (FRC) eftir að þriðjungur endurskoðaðra viðskiptareikninga þeirra voru undir gæðastöðlum á síðasta ári. Financial Times segir frá .

FRC sagði að umbæta þurfi aukinn fjölda endurskoðaðra reikninga hjá fjórum stærstu endurskoðunarfyrirtækjum Bretlands, þeim PwC, Deloitte, EY og KPMG, en einnig hjá smærri fyrirtækjum líkt og BDO og Grant Thornton.

Mestu gagnrýnina fengu fyrirtækin PwC (stærsta endurskoðunarfyrirtæki Bretlands ef horft er til tekna), KPMG og Grant Thornton. Endurskoðunarfyirirtækin hafa verið í sviðsljósinu eftir gjaldþrot stórra fyrirtækja á borð við Thomas Cook, Carillion og Patisseri Valerie.

Sjá einnig: Auknar kvaðir á endurskoðunarrisa

„Við höfum áhyggjur af því að fyrirtæki séu ekki nógu stöðugt að ná nauðsynlegum gæðastaðli,“ er haft eftir David Rule, framkvæmdastjóra eftirlitsdeildar FRC. „Tónninn frá æðsta hluta fyrirtækja þarf að styðja við ögrunarmenningu (e. culture of challenge) og endurskoðendur sem taka erfiðar ákvarðanir.“

FRC sagðist vera einstaklega óánægt með frammistöðu endurskoðunarfyrirtækjanna hvað varðar samskipti við stjórn skjólstæðinga sinna. Það hafi leitt til þess að endurskoðendur hafi ekki skorað á fyrirtæki, sérstaklega vegna virðisrýrnunar á viðskiptavild, tekna og samninga ásamt afskriftarsjóðum útlána (e. loan loss privisions).