Breska samkeppniseftirlitið (CMA) hefur kallað eftir að Facebook selji dótturfyrirtækið Giphy sem netrisinn eignaðist á síðasta ári fyrir 400 milljónir dala, eða um 50 milljarða króna. Eftirlitið tók samrunann til rannsóknar í apríl síðastliðnum og gaf út bráðabirgðaniðurstöður í dag.

Stuart McIntosh, sem leiðir rannsóknarteymi CMA, segir að yfirtakan á Giphy geti gert Facebook kleift að koma í veg fyrir að aðrir samfélagsmiðlar noti GIF-hreyfimyndasniðin. Jafnframt gæti Facebook krafið notendur Giphy á öðrum samfélagsmiðlum líkt og TikTok, Twitter og Snapchat, að veita aukinn aðgang að persónugögnum til að nota GIF myndirnar.

Í tilkynningu CMA segir að ef áhyggjur eftirlitsins hvað varðar áhrif á samkeppni séu á rökum reistar, þá gæti það leitt til þess að eftirlitið krefji Facebook að vinda ofan af samningnum og selja Giphy í heild sinni.

Facebook keypti bandaríska fyrirtækið Giphy í maí síðasta ári með það í huga að sameina það við samfélagsmiðilinn Instagram. Netrisinn tók skýrt fram að Instagram hygðist halda áfram að leyfa öðrum samfélagsmiðlum aðgang að Giphy safninu.

Greining CMA leiddi einnig í ljós að Facebook er með um 50% markaðshlutdeild á 5,5 milljarða punda stafræna auglýsingamarkaðnum (e. display advertising market) í Bretlandi.

Talsmaður Facebook segir að fyrirtækið sé ósammála ályktun CMA og að gögnin gefi aðra sögu til kynna. Facebook vakti einnig athygli á því að Giphy er ekki með neinar starfsmenn, tekjur eða eignir í Bretlandi. Fyrir vikið nái lögsvið CMA ekki til Giphy samrunas.

Um er að ræða sjaldgæft dæmi um að erlenda stofnun skipti sér af samruna hjá einu af  stóru bandarísku tæknifyrirtækjunum, að því er kemur fram í frétt Financial Times .