Eftirlitsgjald á banka hefur hækkað um 396% frá árinu 2008 og um 572% á verðbréfafyrirtæki. Þegar áhrif þessa eru skoðuð á Auði Capital annars vegar og MP banka hins vegar sést hver áhrifin eru í krónum og aurum. Auður er með leyfi verðbréfafyrirtækis en MP banki er með viðskiptabankaleyfi. Bæði greiða fyrirtækin hlutfall af eignum sínum í eftirlitsgjald.

Árið 2008 námu eignir Auðar Capital, sem er með leyfi verðbréfafyrirtækis, 1,2 milljörðum króna og greitt eftirlitsgjald nam 753.000 krónum. Eðlilega liggja ekki fyrir ársreikningar fyrir árið 2012, en ef við gerum ráð fyrir því að eignir haldist óbreyttar þarf Auður að greiða 4,9 milljónir króna til FME.

MP banki þurfti að greiða 3,6 milljónir króna fyrir eftirlit FME vegna 53,4 milljarða króna efnahagsreiknings. Eignir hans voru 49,5 milljarðar um mitt síðasta ár og ef gert er ráð fyrir því að eignir hans verði 50 milljarðar í ár mun hann þurfa að greiða 16,9 milljónir til FME.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.