Tíu vikum eftir að sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts var kunngjörð, hefur eftirlitsnefnd sem á að fylgjast með því að ríkisfyrirtækið fari að skilmálum sáttarinnar, enn ekki verið skipuð. Félag atvinnurekenda bendir á þetta og hvetur til þess að bætt verði úr þessu hið fyrsta.

„Það er að sjálfsögðu mikilvægt að vanda til verka við skipun eftirlitsnefndarinnar, en líka mikilvægt að hún taki sem fyrst til starfa,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Ýmislegt bendir til að á þeim mánuðum sem eru liðnir frá því að sáttin var kunngjörð hafi ríkisfyrirtækið síst dregið af sér í framgöngu sinni gagnvart keppinautum með því að undirbjóða viðskipti og bregða fæti fyrir keppinauta með því að rýra viðskiptakjör þeirra. Nefndin mun því hafa nóg að gera um leið og hún hefur verið skipuð.“