Fjármálafyrirtæki bregðast hart við viðleitni Fjármálaeftirlitsins (FME) til að nýta valdheimildir sínar í auknum mæli. Þetta segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME.

Fram kemur í viðtali við Unni í Morgunblaðinu í dag, að það sé hluti af skyldum FME að halda ákveðinni fjarlægð frá eftirlitsskyldum aðilum og taka ákvarðanir sem eru bæði umdeildar og geta komið illa við tiltekna aðila.

Í viðtalinu minnir Unnur, sem nýverið tók við forstjórastöðu FME eftir að hafa gegnt henni tímabundið, á að FME hafi í Rannsóknarskýrslu Alþingis verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki nýtt valdheimildir sínar til að taka fyrr á þeim vanda sem var í uppsiglingu í fjármálakerfinu í aðdraganda hruns.

„Það er hins vegar athyglisvert, nú þegar FME hefur einmitt nýtt valdheimildir sínar í meira mæli, að þá hefur það valdið andófi hjá eftirlitsskyldu aðilunum,“ segir Unnur og bætir við að nokkrir þeirra hafi brugðist hart við vinnubrögðum FME. „Það hefur verið farið í hvert dómsmálið á fætur öðru til þess að krefjast ógildingar á ákvörðun okkar.“