Margir hafa spurt sig af því hvers vegna Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi ekki stöðvað lánveitingar á gengisbundnum þegar þau voru veitt í stórum stíl, í ljósi þess að gengistrygging hefur nú verið dæmd ólögleg. Hróbjartur Jónatansson hrl. segir þetta vera sanngjarnar spurningar, í viðtali við Viðskiptablaðið. "Ég sé ekki betur en að eftirlitsstofnanir hafi talið þetta vera lögleg lán. Það má benda á það að Seðlabanki Íslands, sem er eftirlitsaðili á fjármálamarkaði, setti reglur á markaði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í apríl sl. sem ekki er hægt að skilja á annan hátt en að gengistrygging lána sé heimil. Þetta segir manni það að eftirlitsstofnanir, ekki síður en lánastofnanir, hafa litið svo á að gengistryggingin sé ekki bönnuð. Þetta getur vitaskuld haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið og eftirlitsstofnanirnar. Skaðabótaskylda gæti augljóslega myndast af þessum sökum."

Hróbjartur vísar til reglna sem Seðlabanki Íslands fjallar, m.a. á vefsíðu sinni, 29. apríl á þessu ári. Í reglunum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár segir m.a.: "Þrátt fyrir 1. mgr. 4. gr. er verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs heimil þó lán sé til skemmri tíma en fimm ára þegar um er að ræða skuldbreytingu láns í erlendri mynt eða láns tengdu gengi einnar eða fleiri erlendrar myntar í íslenskar krónur. Heimild þessi gildir til ársloka 2012."

Sjá ítarlegt viðtal við Hróbjart í Viðskiptablaðinu í dag.