*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 23. mars 2015 14:05

Eftirlitsstofnanir þurfa að halda rétta fólkinu

Aðstoðarframkvæmdastjóri AGS fór yfir það á fundi Fjármálaeftirlitsins hvað einkennir góða eftirlitsaðila.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eftirlitsaðilar fóru oft á tíðum ekki í fyrirbyggjandi aðgerðir þó þeir hafi oft á tíðum vitað af hættunni. Ástæðurnar voru ólíkar en í einhverjum tilfellum voru þær stjórnmálalegs eðlis. Þetta sagði Ceyla Pazarbasioglu, aðstoðarframkvæmdastjóri AGS, á fundi Fjármálaeftirlitsins þar sem fjallað er um tilgang og framtíð Fjármálaeftirlitsins.

Í erindi sínu fór Pazarbasioglu í gegnum lykilatriði sem einkenna góða eftirlitsaðila. Hún lagði áherslu á gott samstarf eftirlitsins við fjármálaráðuneyti og Seðlabanka. Einnig lagði hún mikla áherslu á starfsfólk eftirlitsstofnanna. Til að halda starfsfólki með rétta þekkingu til að standa bak við gott eftirlit þarf að hafa gott ráðningarferli og samkeppnishæf laun. Annars muni ekki takast að halda rétta fólkinu.

Þá sagði hún einnig að bankarnir myndu alltaf hafa möguleika og fjármuni til að keppast um sama fólkið en nauðsynlegt væri hins vegar að fólk með þekkingu á fjármálakerfinu starfaði við eftirlit.