„Það er erfitt að nefna eina ferð sem þá eftirminnilegustu en líkt og flestir þekkja sem hafa farið sem skiptinemar til framandi landa þá er það reynsla sem fylgir manni alla tíð,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.

„Ég fór til Tyrklands sumarið eftir fyrsta árið mitt í viðskiptafræði. Ég hafði sótt um vinnuskipti í gegnum AIESEC, alþjóðleg skiptinemasamtök sem sjá um að útvega ungu fólki vinnu. Ég ætlaði til Þýskalands en var úthlutað Tyrklandi. Ég ákvað að slá til og vann þetta sumar á skrifstofu í fyrirtæki sem framleiðir hveiti í borginni Eskisehir í miðju Tyrklandi. Það var ómetanleg reynsla og upplifun að kynnast menningu Tyrklands með þessum hætti. Ein eftirminnilegasta uppákoman erlendis var þegar ég fór í helgarferð til Varsjár í Póllandi með fyrrum vinnufélögum og vinum að heimsækja sameiginlega vini okkar sem þar bjuggu. Þegar til borgarinnar var komið og við ætlum að panta fyrsta drykkinn á barnum er okkur bent á skilti á pólsku sem var þýtt fyrir okkur: Ekkert áfengi í Varsjá næstu 48 klukkustundirnar. Þessa helgi má segja að Pólverjar hafi gerst kaþólskari en páfinn en þetta áfengisbann var einmitt tilkomið vegna komu hans til borgarinnar. Við skelltum okkur auðvitað í messuna og hlutum blessun páfans ásamt hundruðum þúsunda annarra. Við höfðum örugglega meiri húmor fyrir þessu áfengisbanni en hópurinn frá Bretlandi sem við sáum á flugvellinum en þeir voru mættir til Varsjár til að steggja einn úr hópnum þessa helgi.