Hafin er sala á nýjum lóðum í Leirvogstungu í Mosfellsbæ. Um er að ræða 29 lóðir fyrir einbýlishús á einni hæð, þrjár raðhúsalóðir og eina parhúsalóð. Einbýlishúsalóðirnar eru á því svæði hverfisins sem liggur næst Leirvogsá og eru með þeim síðustu sem boðnar verða til sölu í hverfinu segir í fréttatilkynningu.

Þar kemur fram að eftirspurn hefur verið mikil eftir slíkum lóðum og því má búast við að þær seljist hratt.

Vegna góðra viðbragða hefur framkvæmdum í Leirvogstungu verið flýtt eins og kostur er til þess að koma til móts við kaupendur. Upphaflega var gert ráð fyrir að það tæki fjögur til sjö ár að koma öllum lóðunum í sölu. Í júlí á þessu ári var eitt ár liðið frá fyrstu skóflustungu og er þegar búið að bjóða til sölu lóðir fyrir um þrjá fjórðu af þeim íbúðum sem verða í hverfinu.


Leirvogstunga er í Mosfellsbæ og afmarkast af Köldukvísl og Leirvogsá. Við skipulag hverfisins var lögð sérstök áhersla á græn svæði og nálægð við náttúru. Hverfið er einnig vel afmarkað og hefur sérstaka hverfismiðju. Þetta er gert til þess að skapa ákveðinn hverfisbrag og gefa notalega rýmistilfinningu. Engin fjölbýlishús verða í hverfinu auk þess sem rýmra er um lóðir en víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og meira um falleg, opin, sameiginleg svæði á milli þeirra.