Forstjóri stærstu flugvélaleigu heims, Air Partner, segir að framkvæmdastjórar risafyrirtækja noti einkaþotur nú minna en áður.

David Savile segir Air Partner nú standa frammi fyrir erfiðari tímum þar sem niðursveifla í efnahagslífi á heimsvísu neyðir fyrirtæki til að herða sultarólina. Viðskiptavinir Air Partner hafa í gegnum tíðina verið m.a. enska konungsfjölskyldan, Tom Cruise og Manchester United.

Nú herjar fyrirtækið hins vegar á markað Mið-Austurlanda til að vega upp á móti minni eftirspurn í Bandaríkjunum og Evrópu.

David sagðist þó bjartsýnn á að Air Partner geti staðið af sér erfiða tíma fram undan. „Við höfum séð mikla aukningu á því að efnað fólk fljúgi með okkur í fríið til að sleppa við skarkalann á Heathrow og Stansted,“ sagði hann. „Við höfum einnig gert vöru- og þjónustuframboð okkar mun fjölbreyttara.“

Á undanförnum árum hefur Air Partner lagt aukna áherslu á flutning varnings sem flytja þarf í flýti og hentar ekki að senda með hefðbundinni póstþjónustu, t.d. hefur félagið flutt bíla á bílasýningar víða um Evrópu og flutti nýlega PlayStation 3 stýripinna til smásala víða um heim eftir að þeir seldust upp.

Einnig hefur félagið lagt áherslu á að ná samningum við stjórnvöld, þar sem ólíklegt er að fjárráð þeirra breytist mikið á næstunni, að sögn David. „Við höfum puttana í svo mörgu að þó svo að það sé samdráttur á einu sviði ættum við að höndla það,“ sagði David.

Þetta kemur fram í frétt Telegraph.