Það var rúmlega þreföld eftirspurn eftir 25 milljarða króna innistæðubréfum sem Seðlabankinn bauð til sölu til sex mánaða. „Það er því ljóst að töluverð eftirspurn er eftir íslenskum vöxtum,“ segir greiningardeild Landsbankans í Vegvísi.

Bréfin verða rafrænt skráð og hæf til uppgjörs og vörslu í Clearstream sem gerir þau aðgengileg mun fleirum en hefðbundnu innstæðubréfin. Í síðustu viku voru slíkt bréf boðin til sölu í fyrsta skipti eftir að þau voru skráð í Clearstream og seldust upp þeir 50 milljarðar króna sem í boði voru, að sögn greiningardeildarinnar.

Frá því að Seðlabankinn bauð fyrst upp á þessa tegund innstæðubréfa eftir páskana hafa verið seldir 75 milljarðar króna. Í dag fer fram útboð á óverðtryggðum ríkisbréfum með tilboðsfyrirkomulagi hjá Seðlabanka Íslands. Um er að ræða lengsta flokk ríkisbréfa sem ber 8,75% vexti og eru greiddir árlega.

Heildarfjárhæð útboðsins verður tíu milljarðar króna að nafnverði. Seðlabankinn hélt tíu milljarða króna útboð í þessum flokki í lok mars. Þá var tekið tilboðum fyrir 7,2 milljarða króna og var heildarupphæð tilboða tæpir tíu milljarðar króna.

„Veruleg eftirspurn hefur verið eftir þessum bréfum síðan,“ segir greiningardeildin.