Við opnun tilboða um kaup og sölu á greiðslumarki mjólkur á tilboðsmarkaði Matvælastofnunar í gær lækkaði verð um 80 krónur og stendur nú í 180 krónum fyrir hvern lítra. Verðið var hæst 320 krónur á síðasta ári.

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir í samtali við Morgunblaðið að ástæðan fyrir þróun kvótaverðsins sé sú að eftirspurn sé nánast horfin þar sem bændur þurfi ekki að kaupa kvóta til að framleiða mjólk. Þeir fái fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk.

Þótt verðið fari lækkandi býst Baldur ekki við því að sjá skriðu af sölutilboðum frá mönnum sem vilji selja meðan kvótinn sé einhvers virði. „Mér heyrist meira vera um það að þeir sem hætta selji jarðirnar til áframhaldandi reksturs. Það fer minnkandi að menn séu að leysa búin upp og selja í pörtum.“