Alþjóðlega orkumálastofnunin (IEA) spáir því að eftirspurn eftir olíu nái nýjum hæðum í ár, ekki síst vegna opnunar landamæra Kína í kjölfar afléttinga sóttvarnatakmarkana.

Áætlað er að dagleg eftirspurn eftir olíu á heimsvísu muni aukast um 1,9 milljónir tunna og nái methæðum í 101,7 milljónum tunna á dag. Óvissa ríki þó um tvo markaði, Rússland og Kína, að sögn IEA sem birti mánaðarlega samantekt í morgun.

Viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi gætu þrengt að framboði. Framboð af rússneskri olíu í desember var nokkuð stöðugt í kringum í 11,2 milljónir tunna á dag þrátt fyrir takmarkanir Evrópusambandsins (ESB) á innflutning rússneskrar hráolíu.

IEA segir að framboðshlið olíumarkaðarins, sem hafi verið í góðu jafnvægi í byrjun þessa árs, gæti skyndilega dregist saman þegar viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja, þá einkum bann ESB á innflutningi hreinsaðra rússneskra olíuvara frá og með 5. febrúar, taka gildi að fullu.

Hráolíuverð hækkaði verulega á síðasta ári eftir innrás Rússa í Úkraínu en lækkaði aftur þegar leið á árið. Verð á tunnu af Brent hráolíu hækkaði um meira en 1% í morgun og stendur nú í tæplega 87 dölum.

Væntingar um aukna eftirspurn í Kína er ein helsta skýringin fyrir 10% hækkun á olíuverði á undanfarinni viku. IEA sagði að nærri helmingur af áætlaðri aukinni olíuneyslu í ár verði í Kína. Eftirspurn eftir olíu í Kína dróst saman í fyrra í fyrsta skiptið frá árinu 1990.

OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, áætla að eftirspurn eftir olíu aukist um 2,2 milljónir tunna í ár en þar af megi rekja hálfa milljón tunna til Kína.