Tveir flokkar ríkisskuldabréfa voru stækkaðir í dag þegar að Seðlabankinn hélt útboð í flokkum ríkisbréfa sem eru á gjalddaga í júní á næsta ári og í mars árið 2010.

Vegvísir Landsbankans segir frá þessu.

Þar segir að alls hafi staðið til boða 10 ma.kr. í styttri flokknum, RIKB 09, og 5 ma.kr. í lengri flokknum RIKB 10.

„Samtals bárust tilboð fyrir 8 ma.kr. í RIKB 09 og var tilboðum fyrir aðeins 3,4 ma.kr. tekið á meðalávöxtunarkröfu 13,16%. Þetta er annað útboðið í röð þar sem heildartilboð í þennan flokk eru lægri en upphæðin sem er í boði. Í júlí var flokkurinn stækkaður um 3,7 ma.kr. en þá voru einnig 10 ma.kr. boðnir út. Þar til nýlega hefur mestur áhugi verið á sem stystum ríkisbréfum og er þessum útgáfum meðal annars ætlað að mæta þeirri eftirspurn,“ segir í Vegvísinum.

Þar kemur jafnframt fram að meiri áhugi hafi nú verið á lengri bréfunum, RIKB 10, en alls bárust tilboð fyrir 14,4 ma.kr. Tilboðum var tekið fyrir 5 ma.kr. með meðalkröfu 12,95%. Eftirspurn eftir ríkisbréfum virðist því vera að færast yfir í lengri flokkana.

Alþingi veitti í lok maí ríkissjóði heimild til þess að verja allt að 500 mö.kr. í aðgerðir til að styðja við innlenda vaxtamyndun og stækka gjaldeyrisforðann.

Af þessari upphæð voru 75 ma.kr. eyrnamerktir aukinni útgáfu stuttra ríkisbréfa og útgáfan í dag tilheyrir þeirri aðgerð. Í Vegvísinum segir að viðbrögð í síðasta útboði Seðlabankans hafi bent til þess að mesti eftirspurnarþrýstingur eftir stuttum ríkisbréfum væri að baki - enda hefur gjaldmiðlaskiptamarkaður (SWAP markaður) opnast að einhverju leyti á ný eftir að hafa stíflast í mars. Undanfarna daga hafi ávöxtunarkrafa stystu ríkisbréfaflokkanna á markaði hækkað.

Þessi þróun haldist í hendur við þróun vaxtamunar á gjaldeyrisskiptamarkaði, en vaxtamunurinn hefur aukist þar á ný undanfarnar vikur. Í næsta mánuði verði 15 ma.kr. til viðbótar boðnir út í þessum sömu flokkum og verða þá 10 ma.kr. boðnir út í þeim lengri, að því er fram kemur í Vegvísinum.