Á svæðinu milli Innstavogs og hesthúsahverfisins við Æðarodda á Akranesi voru fyrir nokkrum árum skipulagðar 17 svokallaðar smábýlalóðir. Fram til þessa hefur lítil eftirspurn verið eftir lóðunum en síðustu daga færðist skyndilegur vöxtur í umsóknir og hefur nú verið sótt um 6 lóðann að því er kemur fram í frétt Skessuhornsins.

Lóðirnar eru af stærðinni 1,1 til 1,9 hektarar og eru hugsaðar fyrir þá sem vilja reisa sér íbúðarhús, bílgeymslu auk aðstöðu fyrir búfénað og jafnvel heimilisiðnað af einhverju tagi, á sama stað, eða einskonar vísi að sveitabæ. Samkvæmt byggingaskilmálum má reisa á hverri lóð 2 íbúðir, eina aðalíbúð og aðra smærri sem þó verður að vera í innan við 10 metra fjarlægð frá aðalíbúð. Auk þess má reisa gripahús á lóðinni eða aðstöðu til smáiðnaðar.

Þessar lóðir voru upphaflega hugsaðar sem spennandi kostur t.d. fyrir hestamenn. Einhverra hluta vegna hefur eftirspurn fram að þessu verið lítil en það breyttist skyndilega þar sem nú hefur verið sótt um 6 af þeim 16 lóðum sem hugsanlega er hægt að úthluta. Nú er verið að kanna með möguleika á vatns- og raflögnum inn á svæðið og fól bæjarráð á síðasta fundi sínum bæjarstjóra að kanna slíkt hjá forsvarsmönnum Orkuveitunnar segir í Skessuhorninu.