Opinberar stofnanir birta ýmis tölfræðigögn um vinnumarkaðinn, á borð við fjölda lausra starfa og atvinnuleysi, en nokkuð dýpra er á gögnum sem varpa ljósi á eftirspurn eftir auglýstum störfum. Blaðamaður kannaði eftirspurnarhlið vinnumarkaðarins nánar byggt á greiningu á gögnum frá Alfreð, stærsta atvinnuleitarmiðli landsins.

Meðalfjöldi umsókna um hvert starf á höfuðborgarsvæðinu á fyrsta ársfjórðungi 2021 dróst saman um 15% frá sama tímabili ári fyrr, en á sama tíma jókst meðalfjöldi atvinnulausra um 89% samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun. Fjöldi auglýstra starfa á tímabilinu jókst um 86% á milli ára en heildarfjöldi umsókna um 57%.

Meðalfjöldi umsókna um hvert starf á síðustu þremur ársfjórðungum 2020 var 55% hærri á sama svæði en á sama tímabili árið 2019. Meðalfjöldi atvinnulausra á svæðinu á sama tímabili jókst um 134% milli ára, fjöldi auglýstra starfa á tímabilinu dróst saman um 22% og heildarfjöldi umsókna jókst um 23%.

Meðalfjöldi umsókna um hvert starf á höfuðborgarsvæðinu jókst milli ára eftir að faraldurinn skall á árið 2020 en það breyttist á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Mikil aukning á framboði starfa getur skýrt viðsnúninginn að hluta, en að teknu tilliti til aukins atvinnuleysis vekur viðsnúningurinn þó ýmsar spurningar.

Rétt er að geta þess að greiningin nær aðeins til starfa sem teljast sem full störf. Hlutastörf, tímabundin störf og sumarstörf voru undanskilin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .