Kreppan breytir neyslumynstri fólks og það hefur aftur áhrif á fyrirtækin. Fólk heldur að sér höndum og reynir að sleppa öllum óþarfa. Fyrirtæki sem selja lúxus verða því frekar fyrir barðinu á kreppunni en önnur fyrirtæki.

„Fólk þarf enn að borða og drekka þannig að okkar rekstur hefur fram að þessu ekki orðið fyrir neinum stórkostlegum áföllum," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. Hann kveðst þó finna fyrir samdrætti í öðrum innfluttum vörum, svo sem í sölu á kertum og servíettum.

„Í sumum vöruflokkum er hins vegar aukin eftirspurn, til dæmis hefur eftirspurn eftir innlendum bjór aukist til muna," segir hann. „Fólk styður betur við innlenda framleiðslu og við njótum góðs af því."

Sumir blómstra í kreppu

Brynhildur Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Kontakt, segir að ákveðin fyrirtæki blómstri í kreppu. Skósmíðaverkstæði sé til dæmis skólabókardæmi um kreppufyrirtæki. Í stað þess að kaupa nýjar vörur; ný föt eða ný skó, sé það gamla dregið fram, lagað og endurbætt.

„Ég hef heyrt af viðgerðarverkstæðum sem eru að fá fleiri tæki í viðgerð," segir hún. „Svo reikna ég með að lögfræðingar hafi brjálað að gera og endurskoðendur hjá skilanefndum bankanna."

Nánar er fjallað um stöðu fyrirtækjanna í Viðskiptablaðinu.